Kelduhverfi

Faðminn breiða fjöllin blá
fjöturs greiða böndin.
Alltaf seiðir einhver þrá
inn í heiðalöndin.

Þorfinnur Jónsson, Ingveldarstöðum í Kelduhverfi

Gróðurfar

Heiðar Kelduhverfis eru vel er vel grónar, nánast eingöngu mólendi með ríkjandi lynggróðri og skógarkjarri, sem einkennast hraunklöppum og hraundröngum á yfirborði.

Birkiskógar og -kjarr eru nokkuð útbreiddir sérstaklega í austurhluta heiðarinnar. Heiðarnar eru flatlendar, en hækka jafnt og þétt til suðurs. Nyrst eru þær í um 40 m yfir sjávarmáli, en syðst eru þær að mestu í um 300 m.y.s. En syðst í Gjástykkinu ná þær í 400 m.y.s. (heimild: vefjsjá Alta). Jarðvegur er misdjúpur og víða stutt á klöpp

Jarðfræði

Heiðin stendur að mestu á hrauni. Stærstur hluti hennar stendur á skildingahrauni allt að 14500 ára gömlu upprunnu frá Þeistareykjabungu. Þó eru þrjár yngri hrauntungur, úr Hverfiseldum fyrir um 2650 árum, einnig úr Þeistareykjabungu sem teygja sig mislangt í átt til bæja, sú vestasta nær niður að Lóni, sú í miðið niðurundir miðja Garðsheiði, en sú austasta nær niður að Skúlagarði. Nyrsti hluti þeirrar tungu er þó eldri, eða 8-11.000 ára gamall. Gamall berggrunnur er einungis vestast í sveitinni. Grágrýti og móberg finnst einungis syðst og vestast í heiðinni, á ásum sem þar eru, svo sem Þríhyrningi, Dimmadalsás og Lönguhlíð. Fjöllin vestast eru úr basalti frá míósen, eða frá því að Ísland byrjaði að myndast fyrir 23-5 milljónum ára síðan.

Staðsetning

Kelduhverfið liggur inn af botni Öxarfjarðar. Að norðan afmarkast það af sjónum, að austan af Jökulsá á Fjöllum, að vestan af háfjöllum upp af Tjörnesinu og að sunnan af merkjum við fyrrum Aðaldælahrepp. Kelduhverfið var sér sveitarfélag fram til 2006, Kelduneshreppur, en sameinaðist þá í nýtt sveittarfélag Norðurþing.

Líkt og víðar í dreifbýli á Íslandi hefur fólksfækkun verið töluverð síðastliðna hálfa öld. Árið 1970 bjuggu 224 í Kelduneshreppi, 122 árið 1990 og 2006, síðasta árið sem Kelduneshreppur var til sem sér stjórnsýslueining, voru íbúar með lögheimili 101. 2022, eru 55 íbúar fastbúandi og þar af 67% yfir fimmtugu. Er þá miðað við þá sem dvelja virka daga að vetrarlagi í Kelduhverfi. Nokkuð fleiri eiga lögheimili í Kelduhverfi, en er þá um að ræða námsmenn, eða fólk sem á hér eignir en býr ekki eða starfar á svæðinu að staðaldri. Það er því hægt að segja að íbúafjöldi sé einungis um fjórðungur þess sem var fyrir hálfri öld, en fyrir hálfri öld var lítið um það að lögheimili væri skráð annað en þar sem raunveruleg búseta var. Ef þessar tölur eru settar í samhengi, þá myndi þessi fækkun samsvara því að Íslendingar í heild væru í dag um 50 þúsund, en ekki tæplega 370 þúsund.

Margar af jörðum og þar með þeim íbúðarhúsum sem þeim fylgja eru ekki í fastri búsetu og hefur það breyst töluvert á síðustu 20 árum. Þó eru vísbendingar um að sú þróun gæti verið að snúa við. Í dag er þó ekki föst búseta í 51% íbúðarhúsa í Kelduhverfi. Á sama tíma er húsnæðisskortur, því ekkert af því húsnæði sem ekki er búið í, er laust til leigu. Er því mjög erfitt fyrir fólk sem hefði áhuga á að prófa að búa í Kelduhverfi að gera það.